Endurheimt og mikilvægi hvíldar
- asmckee6
- Dec 19, 2022
- 2 min read
Sunnudagurinn er eini dagurinn í vikunni sem ég æfi ekki, hvort sem það er að stinga mér ofan í sundlaugina eða taka á því í ræktinni. Þrátt fyrir það, þá er þessi dagur jafn mikilvægur og allir aðrir æfingadagar. Fyrir mér þá snúast sunnudagar um að hlaða batteríin og undirbúa líkamann fyrir átök vikunnar með því að einblína á endurheimt. Hvíld og árangur í æfingum haldast fast í hendur og þess vegna hefur viðhorf mitt til hvíldar mikið breyst á undanförnu og hafa sunnudagar og aðrir hvíldardagar farið að spila stærra og stærra hlutverk í undirbúningi mínum fyrir Ólympíuleikana.
Til að standa sig betur í einhverju er gott að vera með markmið. Ég er ekki einungis með árangurstengd markmið í lauginni heldur hef ég líka sett mér hvíldartengd markmið. Í dag var markmiðið að uppfylla eftirfarandi:
Sofa að minnsta kosti 7 tíma Sunnudagar eru einu dagarnir sem ég get sofið út og reyni ég því alltaf að vakna eins seint og ég get á sunnudagsmorgnum. Á meðfylgjandi mynd er svefninn minn.
Nudda líkamann Ég nota rúllu (foam roller), bolta (lacrosse ball), og nudd byssu (massage gun) til að vinna á aumum svæðum líkamans. Rúllan er geggjuð fyrir stóra vöðvahópa á meðan boltinn er snilld fyrir hnúta og litla vöðvahópa sem er erfitt að ná til með rúllunni
Leggja mig Mér finnst oft fyndið að setja mér markmið sem hljóma svona kjánalega en líkaminn nær bestu endurheimtinni á meðan hann sefur. Lúr eftir hádegismat er góð leið til að hlaða batteríin. Á meðfylgjandi mynd getið þið séð lúrinn.
Yoga Að fara í yoga á sunnudögum er uppáhaldið mitt. Yoga hjálpar mér bæði að teygja á vöðvum sem eru stífir eftir æfingar vikunnar og slaka andlega til að undirbúa mig fyrir átök næstu viku.
Magnesíumbað Að enda daginn á baði hjálpar mér að róa líkamann niður fyrir svefn. Magnesíumbaðið hjálpar einnig við að minnka stress og getur líka hjálpað við endurheimt
Með því að setja sér endurheimtarmarkmið þá getur maður unnið markvisst að hvíld líkamans og verið viss um að maður sé tilbúinn í átök vikunnar. Hvaða endurheimtarmarkmið gætu hjálpað þér að hvílast betur?
Comments